Atlastaðir í Svarvaðardal

Úr Metapedia
Stökkva á: flakk, leita

Atlastaðir er næstinnsti bær í Svarfaðardal, 21 km frá Dalvík og er í um 220 m hæð yfir sjó. Upp af bænum er fjallið Skjöldur sem er 1027 m hátt, bratt og rismikið. Inn frá Atlastöðum rís hið formfagra Hnjótafjall (1130 m) fyrir botni Svarfaðardals. Á fyrri öldum voru Atlastaðir í þjóðbraut. Þaðan liggur leiðin yfir Heljardalsheiði. Skallárdalur gengur til vesturs inn frá Atlastöðum og tilheyrir jörðinni. Um hann liggur forn fjallvegur, Unadalsjökull til Skagafjarðar og annar fjallvegur, Hvarfdalsskarð, í Fljót. Skallá fellur um dalinn og sameinast Svarfaðardalsá hjá Atlastöðum.

Ekki er vitað hvenær búskapur hófst á Atlastöðum en það mun hafa verið snemma á öldum. Jörðin þótti góð til búskapar áður fyrr sakir góðra slægjulanda og framúrskarandi beitilands á Skallárdal og Hnjótum, sem tilheyra jörðinni. Á nútímavísu verður jörðin þó að teljast fremur harðbýl enda liggur hún hátt yfir sjó þar sem vorar seinna en í lágsveitum. Hefðbundinn búskapur lagðist þar af nálægt aldamótum 2000. Síðasti bóndi á Atlastöðum var Lena Gunnlaugsdóttir. Um skeið voru eigendur Atlastaða hjónin sr. Guðrún Edda Gunnarsdóttir og Einar Sigurbjörnsson prófessor. Árið 2019 keypti ferðaþjónustufyrirtækið Fljótabakki jörðina með gögnum og gæðum.