Búrúndí

Úr Metapedia
Stökkva á: flakk, leita

Búrúndí er lítið landlæst ríki í Mið-Afríku við stóru vötnin. Það á landamæriRúanda í norðri, Tansaníu í suðri og austri, og Lýðveldinu Kongó í vestri. Stór hluti vesturlandamæranna liggur við Tanganjikavatn. Nafnið er dregið af heiti bantúmálsins kírúndi. Búrúndí er mjög þéttbýlt og fátækt land.

Landið hefur verið byggt Túum, Hútúum og Tútsum í minnst fjórar aldir. Undir lok 17. aldar stofnuðu Tútsar Konungsríkið Búrúndí. Í upphafi 20. aldar lögðu Belgar og Þjóðverjar landið undir sig og Búrúndí varð hluti af nýlendunni Rúanda-Úrúndí. Árásir Hútúa á Tútsa í Rúanda, rétt áður en löndin fengu sjálfstæði, urðu til þess að íbúar Búrúndí sóttust eftir aðskilnaði frá Rúanda. Árið 1962 lýsti landið yfir sjálfstæði og tók upp þingbundna konungsstjórn. Árið 1966 var konungsvaldið lagt niður og landið lýst lýðveldi, þótt það væri í raun undir herforingjastjórn. Vopnuð átök milli þjóðarbrota Hútúa og Tútsa hófust nokkrum árum síðar og skipulögð morð áttu sér reglulega stað þrátt fyrir harðar refsiaðgerðir stjórnvalda. Þegar stjórnarskránni var breytt 1992 til að afnema flokksræðið braust út borgarastyrjöld sem stóð frá 1993 til 2006.

Frá 2006 hefur staðið yfir enduruppbygging í landinu undir stjórn Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur gengið hægt og efnahagur landsins er í rúst eftir áratugalanga styrjöld. Landið er eitt það fátækasta í heimi og yfir helmingur barna undir fimm ára aldri býr við viðvarandi vannæringu. Helsta tekjulind landsins er kaffi sem nemur yfir 93% af útflutningi þess, en íbúar Búrúndí flytja líka út aðrar landbúnaðarvörur og góðmálma.