Kíchósti

Úr Metapedia
Stökkva á: flakk, leita

Kíghósti er bakteríusýking sem veldur slæmum langvarandi hósta. Hann er nú sem fyrr hættulegur ef börn undir 6 mánaða aldri fá hann þar sem þau hafa þrengri loftvegi en eldri börn og seigt slímið gerir þeim erfitt að ná andanum. Sem betur fer eru alvarleg tilfelli kíghósta sjaldgæf. Er það að þakka skipulögðum bólusetningum og forvörnum gegn smiti.

Hver er orsökin? Orsök kíghósta er baktería (Bordetella pertussis).

Hvernig fær maður kíghósta? Kíghósti smitast með úðasmiti og er mjög smitandi. Sá sem er í herbergi með einstaklingi með kíghósta getur gengið að því sem gefnu að hann veikist líka, svo fremi hann hafi ekki fengið sjúkdóminn áður eða verið bólusettur. Barn með kígkósta er smitandi allan tímann frá fyrstu hóstakjöltrunum á kvefskeiðinu þar til hóstinn hefur staðið í sex vikur. Smittíminn er því mjög langur í samanburði við aðra barnasjúkdóma. Talið er nokkuð algengt að eldri börn og fullorðnir fái væg tilfelli af sjúkdómnum án þess að slíkt sé greint. Þótt ónæmi gegn sjúkdómnum eigi að vara ævilangt fer það minnkandi með árunum, hvorki bólusetning né sjúkdómurinn sjálfur gefur fullkomið varanlegt ónæmi.

Kornabörn á brjósti eru yfirleitt varin fyrir barnasjúkdómum með þeim mótefnum sem þau fá með móðurmjólkinni. Þetta gildir ekki um kíghósta. Það er einmitt ástæðan fyrir því að svo snemma er byrjað að bólusetja ungabörn. Það er líka ágæt regla að halda kvefuðum, hóstandi börnum frá börnum sem ekki er búið að bólusetja enda er það sú regla sem veldur því að börnum er meinaður aðgangur að fæðingarstofum sjúkrahúsa.

Hvernig lýsir sjúkdómurinn sér? Meðgöngutími sjúkdómsins, það er tíminn frá smiti þar til sjúkdómurinn kemur fram, er mislangur eða frá 5 til 15 dögum en getur einnig verið lengri. Fyrstu einkenni sjúkdómsins eru allt að tveggja vikna langt kvef með vægum hósta. Eftir það hefst hinn dæmigerði kíghósti. Kíghóstinn einkennist af endurteknum hóstakviðum sem standa þar til lungun eru tæmd af lofti. Þá kemur djúp innöndun með hvæsandi soghljóðum sem myndast þegar loftið sogast niður um barkann. Við hóstann gengur seigfljótandi slím upp úr lungunum og algengt er að hóstahviðurnar endi með uppköstum. Í flestum tilvikum er hiti eðlilegur. Hóstinn er óhuggulegur, bæði fyrir veikt barnið og einnig foreldrana sem hafa litla möguleika á að hjálpa barninu. Sjúklingar geta fengið 10-20 eða allt upp í 40 hóstaköst á sólarhring. Það er ekki fyrr en eftir 6-8 vikur sem örugg merki koma í ljós sem benda til þess að sjúkdómurinn sé í rénun.

Hvernig greinir læknir að um kíghósta sé að ræða? Vakni grunur um að barn sé með kíghósta getur læknirinn tekið sýni úr nefkoki þess og sent í ræktun. Svarið liggur fyrir eftir um fimm daga.

Batahorfur Auk hóstakastanna, sem eru mjög óþægileg, getur kíghóstinn haft eftirköst. Mesta hættan er á að veikin breiðist til lungnanna og valdi lungnabólgu eða berkjubólgu. Eyrun eru einnig í hættu því börn geta fengið eyrnabólgur af völdum annarra baktería sem ráðast til atlögu þegar varnir líkamans eru í lágmarki vegna kíghóstans. Einnig er hætta á að skútabólga nái að myndast. Þessum fylgikvillum getur fylgt hiti. Mikilvægt er að vel sé fylgst með því hvort sjúkdómurinn taki breytingum. Leiði kíghósti til fylgikvilla þarf oft að meðhöndla þá með sýklalyfjum.

Hvernig er kíghósti meðhöndlaður? Oftast nær krefst kíghósti engrar sérhæfðrar meðferðar. Þörf er á stöðugu eftirliti með ungbörnum sem fá kíghósta svo og hjá börnum sem hafa aðra sjúkdóma, svo sem astma. Sjúkrahúsinnlögn getur jafnvel reynst nauðsynleg. Sýklalyf hafa sjaldnast mikil áhrif á gang sjúkdómsins nema ef þau eru gefin í upphafi sjúkdómsferlisins. Hins vegar hreinsa lyfin öndunarveginn af kíghóstabakteríunni og koma þannig í veg fyrir að barnið smiti önnur börn.

Hvernig er hægt að fyrirbyggja smit? Mikilvægt er að koma í veg fyrir að smit breiðist út, einkum að verja yngstu börnin eins og hægt er. Þetta á ekki síst við um yngstu leikskólabörnin.

Sé barn með kíghósta í daggæslu eða á leikskóla má ekki taka við börnum á fyrsta ári á sama stað nema þau hafi fengið kíghósta eða verið bólusett tvívegis með minnst fjögurra vikna millibili. Börnum sem orðin eru eins árs má taka við þótt þau hafi ekki fengið kíghósta eða verið bólusett. Það ber að skýra foreldrum þeirra frá smithættunni. Ekki er rétt að taka við sjúkum börnum í leikskólanum. Starfsfólk sem fær kíghósta á að halda sig heima við þar til þau eru ekki lengur smitandi. Komi kíghósti upp á heimili barns eða starfsmanns kallar það ekki á neinar sérstakar varúðarráðstafanir. Ekki er rétt að taka við börnunum aftur fyrr en liðnar eru sex vikur frá því síðasta barnið byrjaði að hósta nema þau hafi verið meðhöndluð með sýklalyfjum. Bólusett er við kíghósta við þriggja mánaða, fimm mánaða og 12 mánaða aldur. Fyrstu tvær bólusetningarnar veita vörn í um 50% tilvika en eftir þriðju bólusteningu er vörnin 70-80%. Þau börn sem fá kíghósta þrátt fyrir að hafa verið bólusett fá styttra og vægara form af sjúkómnum.

Hvaða lyf er hægt að gefa við kíghósta? Eiginleg lyfjameðferð við kíghósta er ekki til eftir að hóstaköstin hafa byrjað. Ef sýklalyf eru gefin snemma í sjúkdómsferlinu má koma í veg fyrir alvarleg hóstaköst. Einnig er hægt að stytta þann tíma sem viðkomandi smitar aðra með því að gefa vissar tegundir sýklalyfja (til dæmis Erythromycin).

Hverja á að bólusetja? Um kíghósta gildir það sama og um alla aðra barnasjúkdóma að forvarnirnar eru mikilvægastar. Mælt er með því að öll börn séu bólusett gegn kíghósta.