Padlhrun

Úr Metapedia

Stökkva á: flakk, leita

Dómsorð

Stefndi Júlíus Jóhannesson greiði stefnanda, Erlingi Jóhannessyni, 5.803.193 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 2.049.398 krónum frá 24. júlí 2003 til 24. júlí 2004, en af 5.614.113 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.803.193 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu Jón Pétur Ólafsson og Hendill ehf. eru sýkn af kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 1.121.400 krónur, þar með talin þóknun Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns að fjárhæð 627.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndu verði sameiginlega dæmdir til að greiða honum 6.297.093 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 2.049.398 krónum frá 24. júlí 2003 til 24. júlí 2004, en frá þeim degi af 5.614.113 krónum til 1. ágúst 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi Júlíus krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti. Til vara krefst hann þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og þá verði málskostnaður látinn niður falla. Þá krefst stefndi þess einnig ,verði fallist á bótaskyldu hans, að dómurinn kveðið á um hvernig bótaskylda skuli skiptast innbyrðis meðal allra stefndu.

Stefndu Jón Pétur og Hendill ehf. krefjast þess aðallega að þeir verið sýknaðir af kröfum stefnanda. Til vara krefjast þeir þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilfellum krefjast þeir málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

II

Málavextir

Hinn 17. júlí 2003 gerðu stefndi Júlíus og stefndi Jón Pétur samning þess efnis að stefndi Jón Pétur tæki að sér múrviðgerðir og steiningu á húsi stefnda Júlíusar að Erluási 5, Hafnarfirði. Stefndi Jón Pétur fékk síðan stefnda Hendil ehf. sem undirverktaka til að aðstoðað sig við verkið. Stefndi Júlíus var byggingarstjóri að verkinu. Stefnandi starfaði á þessum tíma sjálfstætt sem múrari og vann sem slíkur hjá stefnda Hendli ehf. en ágreiningur er um það í málinu hvort stefndi Hendill ehf. hafi borið húsbóndaábyrgð á stefnanda.

Til að unnt væri að vinna umsamið verk reisti stefndi Júlíus, sem er rafvirki, tæknifræðingur og verkfræðingur að mennt, vinnupalla við hús sitt en í samningi Júlíusar og Jóns Péturs var ákvæði þess efnis að hann skyldi reisa slíkan pall. Í samningnum var ákvæði þess efnis að stefndi Jón Pétur skyldi kynna sér verkpalla og samþykkja þá áður en vinna hæfist.