Metapedia Fundraiser 2018: The Internet is the foremost field in the metapolitical battle of our time. Help us hold down the front. |
TJAD
| |||||
Kjörorð: Unité - Travail - Progrès (franska: Eining - vinna - framfarir) | |||||
Þjóðsöngur: La Tchadienne | |||||
Kort sem sýnir staðsetningu Tsjad | |||||
Höfuðborg | N'Djamena | ||||
Opinbert tungumál | franska, arabíska | ||||
Stjórnarfar | Lýðveldi Idriss Déby Albert Pahimi Padacké | ||||
| |||||
- frá Frakklandi | 11. ágúst 1960 | ||||
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
21. sæti 1.284.000 km² 1,9 | ||||
Mannfjöldi • Samtals (2012) • Þéttleiki byggðar |
73. sæti 10.975.648 9/km² | ||||
VLF (KMJ) • Samtals • á mann |
áætl. 2011 19,543 millj. dala (122. sæti) 1.865 dalir (146. sæti) | ||||
Gjaldmiðill | CFA-franki (XAF) | ||||
Tímabelti | UTC +1 | ||||
Þjóðarlén | .td | ||||
Landsnúmer | 235 |
Tsjad er landlukt land í Mið-Afríku. Það á landamæri að Líbýu í norðri, Súdan í austri, Mið-Afríkulýðveldinu í suðri, Kamerún og Nígeríu í suðvestri og Níger í vestri. Landið er að stærstum hluta í Saharaeyðimörkinni. Í norðurhluta þess er Tíbestífjallgarðurinn, stærsti fjallgarður Sahara. Hæsti fjallstindur Tsjad er eldfjallið Emi Koussi í Tíbetsífjallgarðinum sem stendur í 3.445 metra hæð yfir sjávarmáli. Nafn landsins er dregið af nafni Tsjadvatns sem er stærsta votlendissvæðið í Tsjad og það annað stærsta í Afríku. Landið skiptist í þrjú belti: Nyrst er eyðimörk og syðst súdönsk grasslétta en milli þeirra er sahel eða eyðimerkurjaðar.
Íbúar Tsjad eru rúmlega tíu milljónir og tilheyra yfir 200 ólíkum þjóðarbrotum. Tæplega milljón býr í höfuðborginni, N'Djamena, sunnan við Tsjadvatn við vesturlandamæri landsins. Um 120 tungumál af þremur málaættum eru töluð í Tsjad en opinber tungumál landsins eru franska og arabíska. Tsjadísk arabíska er almennt samskiptamál. Rétt rúmur helmingur íbúa aðhyllist íslam og um 40% eru kristnir.
Saga
Snið:Commonscat Menn tóku að setjast að í dældinni við Tsjadvatn á sjöunda árþúsundinu fyrir okkar tímatal. Nokkur ríki komu þar upp í tengslum við Saharaverslunina. Á miðöldum varð hluti landsins hluti af Kanem-Bornúveldinu en á nýöld náðu ríkin Ouaddai og Banguirmi hlutum landsins undir sig. Frakkar hófu herferðir gegn múslimskum soldánsdæmum í Tsjad undir lok 19. aldar og lögðu það undir sig eftir sigur á súdanska stríðsherranum Rabih az-Zubayr í orrustunni við Kousséri árið 1900. Árið 1905 varð Tsjad hluti af Frönsku Miðbaugs-Afríku. Eftir ósigur Frakka gegn Þjóðverjum í Síðari heimsstyrjöld gekk Tsjad til liðs við Bandamenn, fyrst franskra nýlendna. Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1958 var Franska Miðbaugs-Afríka leyst upp og ríkin Gabon, Vestur-Kongó, Mið-Afríkulýðveldið og Tsjad urðu sjálfstæðar nýlendur. Tveimur árum síðar varð Tsjad sjálfstætt og François Tombalbaye varð fyrsti forseti landsins.
Tombalbaye kom á flokksræði og fljótlega hófst uppreisn gegn stjórn hans í norðurhluta landsins. Eftir langvinna borgarastyrjöld var Tombalbaye drepinn í herforingjauppreisn árið 1975 og við tók herforingjastjórn. Aftur braust út borgarastyrjöld árið 1979 sem stóð til 1982. Einn af leiðtogum herforingjastjórnarinnar, Hissène Habré, náði þá völdum. Hann barðist gegn uppreisnarflokkum í norðri sem höfðu stuðning Líbýustjórnar Muammars Gaddafi og barði niður alla mótspyrnu innanlands af mikilli hörku. Árið 1987 sömdu Tsjad og Líbýa um vopnahlé og í kjölfar alþjóðlegrar ráðstefnu 1994 fékk Tsjad aftur yfirráð yfir löndum í norðurhlutanum sem Líbýumenn höfðu hernumið. Einn af herforingjum Habrés, Idriss Déby, hóf uppreisn gegn honum 1989 og náði völdum 1991. Hann sigraði í fyrstu fjölflokkakosningunum sem haldnar voru 1997. Déby náði að kveða niður óróann í landinu að mestu en eftir sigur hans í forsetakosningum 2001 var hann sakaður um kosningasvindl og spillingu. Þegar átökin hófust í Darfúr í Súdan komu þúsundir flóttamanna þaðan til Tsjad sem lýsti Súdan stríði á hendur árið 2005. Í kjölfarið hófst aftur borgarastyrjöld í Tsjad sem stóð til 2010 og náði hápunkti með árás andstæðinga Débys á höfuðborgina N'Djamena í apríl 2006 og aftur í febrúar 2008. Stjórn Débys náði að verjast og hélt völdum. Árið 2010 var undirritað friðarsamkomulag við Súdan sem fól í sér að flóttamenn frá Darfúr fengu að snúa aftur heim.
Stjórnsýsluskipting
Frá febrúar 2008 hefur Tsjad skipst í 22 héruð sem tóku við af 14 umdæmum. Innan héraðanna eru 61 lögsagnarumdæmi sem skiptast í 200 undirumdæmi sem aftur ná yfir 446 sveitarfélög. Hver stjórnsýslueining á að hafa eigin þing en kosningar til sveitarstjórna hafa ekki verið haldnar.