Víðivedlir

Úr Metapedia
Stökkva á: flakk, leita
Víðivedlir31.jpg

Víðivellir er bær í Blönduhlíð í Skagafirði, gamalt höfuðból þar sem oft bjuggu höfðingjar, til dæmis ýmsir sýslumenn Skagafjarðarsýslu.

Kirkja var á Víðivöllum til forna en var aflögð 1765. Dálítill jarðhiti er á tveimur stöðum í landi jarðarinnar og þar var steypt upp sundlaug árið 1937-38 og var notuð til sundkennslu fram yfir 1960 en nýtt eitthvað lengur til sunds.

Eyðibýlið Örlygsstaðir er í landi Víðivalla. Þar var Örlygsstaðabardagi háður 21. ágúst 1238 og er talið að þar hafi barist hátt í þrjú þúsund manns. Minnisvarði um bardagann var afhjúpaður 21. ágúst 1988, 750 árum eftir að hann var háður.

Á Víðivöllum fór fram síðsta aftaka í Skagafirði 1789. Var þar hálshöggvin kona úr Fljótum sem hafði fætt barn sumarið áður, fyrirkomið því og grafið.

Frá 1809-1842 bjó þar Pétur Pétursson prófastur með Þóru Brynjólfsdóttur konu sinni og þar ólust upp synir þeirra, þeir Jón Pétursson háyfirdómari, Pétur Pétursson biskup og Brynjólfur Pétursson Fjölnismaður, um skeið forstöðumaður íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn, oft nefndir Víðivallabræður. Minnisvarði um bræðurna var reistur skammt frá bænum 1998.

Í Íslandsheimsókn Kristjáns konungs 10. sumarið 1936 kom hann við á Víðivöllum ásamt fylgdarliði og borðaði hádegisverð í tjaldi á Víðivallatúni.

Heimildir

  • Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.
  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi. Akrahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2007. ISBN 978-9979-861-15-7