Kvarf sjera Odds á Miklabæ

Úr Metapedia
Stökkva á: flakk, leita

eftir Einar Benediktsson

Hleypir skeiði hörðu
halur yfir ísa,
glymja járn við jörðu,
jakar í spori rísa.
Hátt slær nösum hvæstum
hestur í veðri geystu.
Gjósta af hjalla hæstum
hvín í faxi reistu.


Hart er í hófi frostið;
hélar andi á vör.
Eins og auga brostið
yfir mannsins för
stjarna, stök í skýi,
starir fram úr rofi.
Vakir vök á dýi
vel, þótt aðrir sofi.


"Vötn" í klaka kropin
kveða á aðra hlið,
gil og gljúfur opin
gapa hinni við.
Bergmál brýzt og líður
bröttum eftir fellum.
Dunar dátt í svellum:
Dæmdur maður ríður!
— — —
Þegar ljósið deyr, er allt dapurt og svart,
með deginum vangi bliknar.
Nú vaknar af rökkurmoldum margt, —
í minningum dauðum kviknar.
Þótt beri þig fákurinn frái létt,
svo frosnum glymur í brautum,
þú flýr ekki hópinn, sem þyrpir sér þétt,
þögull í hvilftum og lautum.


Hver andvökunótt, hver æðrustund,
alin í beyg og kvíða,
sjálfframdar hefndir sjúkri lund
saka, er ódæmdar bíða,
í lifandi myndum þig einblína á
með augum tærandi, köldum,
og svipinn þeim harmar liðnir ljá
frá lífs þíns einverukvöldum.